Þjóðverjinn Martin Heinze, e.þ.s. Martsman, hefur látið til sín taka í drum & bass heiminum á undanförnum misserum. Tónsmíðar hans eru tilraunakenndar en heilla jafnframt dansgólf um víða veröld. Á síðasta ári skrifaði Martsman undir samning við Med School útgáfuna og er um þessar mundir að vinna að sinni fyrstu breiðskífu auk annarra verkefna. Breakbeat.is heyrði í Berlínarbúanum Martin og spurði hann spjörunum úr
Breakbeat.is: Sæll Martin, hvað segirðu gott? Hvað er að frétta úr heimi Martsman
Martsman: Það er allt gott að frétta satt best að segja. Ég er að njóta sumarsins í Berlín, semja tónlist, leggja á ráðin um næsta árið og undirbúa mig fyrir lokaprófin í náminu mínu. Hef ekki undan neinu að kvarta.
Breakbeat.is: Hvað er næst á dagskránni? Útgáfur? Breiðskífa? Plötusnúðaferðalag
Martsman: Því miður varð soldið bil í útgáfu hjá mér síðasta hálfa árið eða svo en ég er spenntur fyrir væntanlegum útgáfum á Offkey útgáfunni hans Raiden og á Alphacut útgáfunni sem er í eigu LXC á næstu vikum og mánuðum. Svo kann það að gleðja einhverja að endurhljóðblöndunin mín af Macc laginu “Boomer” kemur loks út í nóvember. Þar fyrir utan er ég enn að vinna í breiðskífu fyrir Med School sem mun sennilega innihalda ýmsar stefnur og stíla þar sem ég hef verið að vinna tónlist í öðrum geirum undanfarið.
Þetta endurspeglast líka í settunum hjá mér, ég hef verið að spila breaks og dubstep og jafnvel mashup og breakcore dót undanfarið. Hvað varðar spilerí og ferðalög þá hef ég verið að hugsa um slíkt en útaf skólamálum og öðru hef ég ekki enn komist í það. Er hins vegar með þó nokkur gigg í Bretlandi á næstunni.
Breakbeat.is: Já við höfum heyrt að þú hafir verið að spila annað og meira en bara drum & bass í settum þínum undanfarið og að svipað sé upp á teningnum í hljóðverinu. Hvenær og hvernig gerðist það?
Martsman: Ég hef auðvitað alltaf haft gaman af og áhuga á fullt af tónlist fyrir utan drum & bass og ég hef reynt að taka þann áhuga og áhrifin og setja þau í 170 bpm (slög á mínútu) drum & bass ramma. En ég reyndi hins vegar aldrei í neinni alvöru að semja tónlist sem flokkaðist undir þessar stefnur og á endanum fannst mér það takmarkandi.
Mér finnst að til þess að nýta þessa áhrifavalda úr öðrum stefnum og straumum þyrfti ég að gera annað og meira en að yfirfæra bara hljóðheim þeirra yfir í drum & bass. Maður þarf líka að skilja hvað er að gerast í tengslum við rýmið, tímann, andann og svo framvegis í tónlistinni. Það má kannski bera þetta saman við það að skrifa ritgerð, þegar maður vitnar í annan texta verðurðu auðvitað að vita hvað tilvitnunin virkilega þýðir annars ertu bara að afrita einstök orð. Með þetta í huga þá fannst mér það góð hugmynd að skipta um hraða í tónsmíðunum, semja tónlist í 100 bpm og í 180, 120, 140 og svo framvegis. Þetta hljómar sjálfsagt en fyrir mér opnaði þetta nýja sýn á hvað er hægt að gera með drum & bass tónlistina.
Að svona hástemmdum pælingum undanskildum þá er líka bara gaman að semja og spila tónlist í hinum ólíkustu geirum. Ég er mikið að fíla breaks dót, útgáfur eins og Tigerbeat6 og svona. Þá hef ég alltaf hneigst meira og meira í áttina að techno og undanfarið hafa flestar tónsmíðar verið í kringum 130 bpm. Þetta mun ábyggilega hafa áhrif á drum & bass tónsmíðar mínar seinna meir og ég er forvitin að sjá hvert þessar breytingar leiða mig á endanum.
Breakbeat.is: Þýða þessar stefnubreytingar hjá þér að þú ætlar að hverfa frá drum & bass tónlistinni?
Martsman: Nei, ég ætla ekki að hverfa frá einu né neinu. Þvert á móti hlakka ég mikið til að halda áfram að semja drum & bass.
Breakbeat.is: Þú hefur unnið með þó nokkrum útgáfum, frá MP3 útgáfunni Plain Audio, yfir í tilraunakenndari útgáfur eins og Counter Intelligence og Offshore og loks ertu komin á mála hjá Hospital dótturfyrirtækinu Med School. Er mikill munur á að starfa með þessum mismunandi útgáfum sem eru á mismunandi stigum drum & bass heimsins?
Martsman:Já, auðvitað er mikil munur á því að vinna með þessum útgáfum. Hospital er alvöru fyrirtæki, atvinnuveitandi í alvöru rekstri, og þar af leiðir að viðhorf þeirra til tónlistarinnar er meira markaðstengt. Smærri fyrirtæki, eins og Counter Intelligence og Offshore, eru meira í þessu út af ástríðunni. Þar með er ekki sagt að Hospital gefi bara út tónlist sem mun örugglega selja, þvert á móti, mér finnst þeir tiltölulega áhættusæknir að ákveðnu leiti. En þegar þeir taka áhættu þarf hún að vera innan ákveðins sviðs, ef þú skilur hvað ég á við.
Fyrir mig persónulega hefur samstarfið við Hospital verið gjöfult. Þeir vinna ötullega að því að koma listamönnum sínum á framfæri, skipuleggja viðtöl, gigg og annað slíkt. Svo ekki sé minnst á hljóðtæknina og ráðgjöf tengda tónsmíðunum – þeir hafa verið mjög kröfuharðir hvað varðar hljóðblöndun og er það ferill sem hefur tekið á (í besta skilningi). Ekki svo að skilja að ég vilji virka óþakklátur í garð annarra útgáfa sem ég hef unnið fyrir. Hver einasta útgáfa sem ég hef staðið af hefur hjálpað mér að vaxa sem listamaður og allir sem því hafa tengst hafa verið hjálplegir á einn eða annan hátt (t.d. hversu vandlátur Brett [innskot ritstj. eigandi Offshore] með fyrstu lögin sem hann hafði af mér [hlátur]).
En hvað sem því líður þá hefur það að komast á mála hjá Hospital opnað ýmsa möguleika fyrir mér í Bretlandi, ekki bara hvað varðar gigg, heldur líka sem hluta af meginstraumi drum & bass senunnar án þess að ég þurfi að hverfa frá tengslum mínum við tilraunakenndari tóna.
Breakbeat.is: Hvaða listamenn eru að gera það í þínum bókum um þessar mundir, innan og utan drum & bass heimsins?
Martsman: Sleeparchive – ótrúlega hnitmiðað og látlaust techno. Monolake / T++ opnar tónsmíðar með þéttum hljóðheimi (endurhljóðblöndun hans á “The Fall” með Shed slær mig útaf laginu í hvert skipti sem ég hlýði á það). Aaron Spectre – og þá sérstaklega hægara dótið hans. Sileni – alltaf! Mochipet, Moderat, Untold, Randomer, LXC, Instra:Mental, Alvin Lucier og stykkið hans “Music on a Long Thin Wire”, mildar melódíur Steve Reich, Autechre... svona gæti ég lengi haldið áfram [andvarp].
Breakbeat.is: Þú ert heimspekinemi ekki satt? Hvernig hefur það áhrif á tónsmíðarnar og öfugt? Skapa djönglismi og heimspeki spennandi “weltanschauung” (heimssýn)?
Martsman: Það er eflaust gagnlegt að líta á “Zeitgeist”-klúbbatónlistar og hvað vekur “Angst” annarra tónlistamanna við tónsmíðar. Þegar kemur að sköpunargáfunni getur það hjálpað “Dasein” þínu sem tónlistarmanni, þar sem þú gætir þurft að skera úr um hvort lög þín séu “eigentlich” eður ei.
Breakbeat.is: Hvaða þýska heimspeking, lifandi eða látinn, myndirðu helst vilja hafa með þér í hljóðverinu?
Martsman: Sennilega Heidegger, við gætum samið þýskt döbb og svo gæti hann grafið upptökurnar í móðurjörð Svartaskógar til þess að bæta hljómgæðin. Hins vegar var hann ekki mikill aðdáandi tækninnar á heildina litið þannig að það myndi sennilega ekki ganga upp.
Breakbeat.is: Eitthvað sem þú vilt segja íslenskum lesendum að lokum?
Martsman: Jón Berg – takk fyrir microinn, sver það að ég er að nota hann. Leópold, komdu aftur til Berlínar, þetta fer að verða leiðinlegt... og allir hinir mig langar að heimsækja ykkur!
Breakbeat.is: Takk fyrir spjallið
Martsman: Takk sömuleiðis.
0 hefur röflað
Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!