Alix Perez - 1984 (Shogun Audio) - 10.10.2009

Alix Perez
1984
Shogun Audio
SHACD003
LP
drum & bass / dubstep / hip hop



Fyrir um áratug var það nánast skylda fyrir tónlistarmenn í drum & bass geiranum að setja nokkur "ekki-drum & bass" lög á breiðskífurnar sínar. Með því átti að sýna hversu “fjölhæfir tónlistarmenn” drum & bass tónsmiðirnir virkilega væru og “hversu víðfemur tónlistarsmekkur þeirra væri”, oftar en ekki hljómuðu þessi lög bara eins og drum & bass lag spilað of hægt. Nú, rúmum tíu árum síðar, er hins vegar líkt og djönglistarnir séu orðnir færari í lagasmíðum utan drum & bass heimsins. Fyrsta breiðskífa Alix Perez, “1984”, er gott dæmi um þetta, þar eru fáein lög utan 170 bpm svæðisins auk handfylli af drum & bass rollerum af bestu gerð, það er svo blandan og balansinn af þessu tvennu sem gerir útkomuna að heildstæðri og góðri breiðskífu.

Alix Perez skapaði sér nafn með því að feta í fótsporttónlistarmanna eins og Calibre og Marcus Intalex, Perez samdi grípandi samplskotið liquid funk drum & bass í léttari kantinum. Síðan þá hefur Perez mátað sig við ýmsa hljóðheima innan drum & bass senunnar, sándið hans er undir greinilegum áhrifum ýmisra frumkvöðla en er þó algerlega hans eigið, þétt blanda af vélrænum og lífrænum hljóðmyndum sem skapar stórt en fíngert sánd. 

Á lagalista “1984” koma margar af stærstu stjörnum nýju kynslóðarinnar í drum & bass heiminum, en Alix Perez hefur boðið mönnum eins og Sabre, Lynx, Zero T og Spectrasoul með sér í hljóðverið auk þess sem heill her af söngvörum, röppurum og söngkonum leggja honum lið. Titillagið “1984” er fyrst á fón og byrjar með draugakenndu vókalsampli og umhverfishljóðum sem einna helst minna á Burial, lagið umbreytist þó fljótt í drum & bass electro bræðing sem minnir ljóst og leynt á Instra:Mental tvíeykið. “I'm Free” er annar roller þar sem rafræn tístum og tónum eru borinn upp gegn lífrænni bumbum og bössum og í “Suffer in Silence” er óþreyjufullum söngbútum skeytt yfir grjótharða bassalínu. Lögin “Fade Away” og “Voices” eru ekki jafn eftirminnileg, ekki léleg en heldur ekkert ofsalega góð, hin týpísku drum & bass lög sem hefðu stefnt skífu þessari í meðalmennskuna ef ekki væri fyrir breytingarnar, fjölbreytnina og andrýmið sem óhefðbundnari lagasmíðar Alix Perez skapa.

Ásamt Lynx og The Truth skapar Perez t.d. melódískan og einlægan dubstep fíling í “No Grudge”. House goðsögnin Even Peverett þenur raddböndin í “Forsaken”, dansar söngur hans fimlega í kringum tregablandina píanó lúppuna og taktaleikfimi Perez og Spectrasoul. Rappararnir Foreign Beggars ríma yfir “The Cut Deepens”, steppy og reykskotið lag með risavaxina bassalínu. Ursula Rucker fer með ljóðlínur sínar í “Intersections”, þreytt flæðið er hálf leiðinlegt yfir mjög venjulegan hop hop takt, súrealískur lýrisismi Yungun í taktleysunni “Calm of Cast” er miklu betri.

Lagauppröðunin er skemmtileg, farið er upp og niður tilfinningaskalan og kraftur skífunnar er leistur úr læðingi hægt og rólega, á heildina litið skapar það fyrirtaks skífu. Það er kannski ekki marga stóra hittara að finna hér en á lúmskan og að því er virðist átakalausan hátt rúlla lögin inn í meðvitundina og sömu sögu er að segja um skífuna sem heild. Alix Perez hefur með “1984” tekist að skapa góða og heildstæða skífu í geira þar sem breiðskífur eru alltof oft samnefnari fyrir tilviljunakennt samansafn laga. 
 

Karl Tryggvason | kalli@breakbeat.is


Deila með vinum:


0 hefur röflað

    Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!

    Póstlisti


    Breakbeat.is
    Podcast