Listamaðurinn með skemmtilega nafnið, Ramadanman, hefur rutt sér til rúms með framúrsæknum tónsmíðum og skífusnúningum í dubstep geiranum. Þá á hann og rekur útgáfufyrirtækið Hessle Audio ásamt félögum sínum Ben UFO og Pangea en Hessle þykir einhver mest spennandi plötuútgáfan í bransanum í dag. Breakbeat.is heyrði í Ramadanman, sem heitir reyndar réttu nafni David Kennedy og spurði hann spjörunum úr.
Það var í kringum 2005 sem Lundúnarbúinn David Kennedy heyrði dubstep í fyrsta sinn og var það í gegnum kynni af grime. "Áður hafði ég verið að hlusta á aðra raftónlist, aðallega house, drum & bass og hip hop" segir Kennedy "og ég hafði verið að semja allskonar tónlist frá því um 2001". Þegar við innum eftir því hvort það sé ástæða þess að Kennedy hafi undanfarið reynt við aðrar stefnur en bara dubstep, játar David því. "Ég er ekkert endilega að víkka út og semja undir nýjum stefnum heldur er ég frekar að snúa aftur í það sem ég gerði áður, þar að auki er enginn eðlismunur á þessari tónlist fyrir mér, aðallega bara spurning um tempó eða hraða".
Kennedy er annars ekki margorður um tónsmíðar sínar, "ég spái ekki mikið í því satt best að segja" segir hann, "mér finnst bara gaman að búa til tónlist sama undir hvaða stefnu hún heyrir svo á endanum". Breakbeat.is leikur hugur á að vita hvernig viðtökur stefnuflakk Kennedy hefur hlotið og kveður hann þær almennt góðar. "Ég held að fólk sé almennt víðsýnna en margur heldur" fullyrðir Kennedy og heldur áfram "það á líka við um plötusnúðastarfið, ég er spila æ fjölbreyttari og víðfemari syrpur og fólk virðist taka vel í það, þótt að það gangi betur sums staðar og verr annars staðar" segir hann og hlær.
"Ég held að fólk sé almennt víðsýnna en margur heldur"
-Ramadanman
Þegar við snúum okkur að Hessle Audio, útgáfunni sem þremenningarnir Ben UFO, Ramadanman og Pangea eiga kveður Kennedy að upphaf útgáfunnar megi rekja til ferðar hans á klúbbakvöldið FWD>> árið 2006 þar sem hann kynntist Ben UFO. Þeir félagar urðu fljótt vinir, hófu útvarpssþátt saman og lögðu svo í púkk til þess að gefa út lag frá rúmenanum TRG, fyrsta útgáfa Hessle. "Við viljum helst gefa út tónlist sem fólk verður enn að hlusta á eftir áratug, ekki bara tónlist sem þú spilar í nokkra mánuði og gleymir svo". Að reka góða plötuútgáfu telur David aðallega vera spurningu um gæðastjórnun, "það er mikið af góðri tónlist til, en maður þarf að leita af þeirri tónlist sem er ótrúlega góð" og það er þessi mælikvarði sem þeir félagar reyna að halda í frekar heldur en að einblína á ákveðnar stefnur, sánd eða strauma.
Blaðamaður laumar inn spurningu um listamannsnafn Kennedy, Ramadanman, hvað þýðir það? Hvaðan kom það? Hefur það einhverja merkingu? "Það þýðir ekki neitt, hefur enga merkingu, þetta er bara eitthvað sem ég bjó til þegar ég var 13 ára" svarar David og hlær. Sömu sögu er að segja um nýtt dulnefni, Pearson Sound. "Pearson Sound átti ekki að vera neitt leyndarmál, en það er bara stundum gaman að sjá hvernig fólk bregst við tónlist þegar það hefur ekki myndað sér fyrirfram skoðun á listamanninum". En er einhver munur á tónlist Ramadanman og Pearson sound? "Eins og ég segi sé ég ekkert endilega mun á tónlistinni og spái ekkert svo mikið í því, finnst bara gaman að semja."
Þegar við spyrjum hvað framtíðin beri í skauti sér svarar Kennedy í einu orði, "tónlist". "Bara að búa til og gefa út meiri tónlist". "Ég er búinn að semja lög með Alix Perez, Brandon Moeller og fleirum og það eru fleiri samstarfsverkefni í burðarliðnum, annars kemmur það bara í ljós" segir þessi bjartsýni og spennandi tónlistarmaður.
- Hlekkir:
- Ramadanman á Myspace
- Hessle Audio
1 hefur röflað
Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!