Útvarpsþáttur Breakbeat.is hefur verið á dagskrá Xins 97.7, með stuttum hléum, allt frá árinu 2002. Undanfarin misseri hefur þátturinn verið á dagskrá á laugardagskvöldum milli átta og tíu en frá og með laugardeginum 28. janúar verður þátturinn tveim tímum síðar á ferðinni og verður þar af leiðandi á öldum ljósvakans frá tíu til tólf.
Þátturinn verður áfram með sama sniði, taktabrotstónlist ýmis konar í aðalhlutverki og fastir liðir á borð við breiðskífu mánaðarins, topp tíu lista, gestasnúða og klassíkera verða á sínum stað.
Í fyrsta þættinum á þessum nýja tíma á laugardaginn líta þeir Tryggvi og Árni Skeng í heimsókn og hita okkur upp fyrir næsta Breakbeat.is fastakvöld sem fer fram á Prikinu fimmtudaginn 2. febrúar næstkomandi
Fyrir þá sem ekki hafa tök á að hlusta í beinni er rétt að minna á upptökur af þættinum á tónasvæði Breakbeat.is auk þess sem þeir tæknivæddari geta nælt sér í þáttinn í hlaðvarpsáskrift og fengið hann sjálfkrafa í tölvuna og tónhlöðuna.
0 hefur röflað
Þú þarft að vera innskráður til að geta röflað!