Sagan - 1990-1993:

1990-92: Hardcore

Í kringum 1990 fóru breskir plötusnúðar og tónlistarmenn að fikta meir og meir við Breakbeat. Meðal annars tóku takta úr hip hop lögum og hröðuðu á þeim svo úr varð taktur sem náði 160-180 taktslögum á mínútu (bpm). Einnig voru laglínur og áhrif tekin úr Reggae, Dub og Acid House tónlist. Úr varð Hardcore þar sem Breakbeat var í aðalhlutverki. Fyrst um sinn var Hardcore tónlistin nátengd Acid tónlistinni en þróaðist síðan eigin átt og leysti Acid House af hólmi sem aðal tónlistin á reifunum. Fyrir vikið var hún oft einfaldlega kölluð Rave tónlist. Meðal fyrstu hardcore laganna voru: "Mr. Kirk's Nightmare" með 4 Hero, sem þeir gáfu út á sinni eigin Reinforced plötuútgáfu, "Illegal Gunshot" með Ragga Twins sem Shut up & Dance gáfu út og "Excorcist" og "The Bee" með DJ Hype (The Scientist) sem gefin voru út af Kickin' Records. Aðrar útgáfur sem spiluðu stórt hlutverk á árunum 1990-92 voru Production House, Ibiza, Suburban Base og Moving Shadow. Telepathy er að öllum líkindum fyrsti Hardcore klúbburinn, en Rage er hins vegar sá merkilegasti. Rage var í gangi á samkynhneigða skemmtistaðnum Heaven og þar spiluðu Grooverider og Fabio nýjustu Hardcore tónlistina hverju sinni. Staðurinn virkaði sem nokkurs konar tilraunastöð á það hvað væri að virka í tónlistinni og margir komust fyrst í kynni við Hardcore á staðnum, þar á meðal kappi með gulltennur og langa ljósa lokka sem kallaði sig Goldie, og átti hann síðar eftir að hafa mikil áhrif á tónlistina. 

Hardcore á Íslandi
Hér á Íslandi myndaðist snemma öflug Hardcore menning í kringum rave-partý, plötu- og tískuvöruverslunina Undirgöngin og útvarpsþáttinn B-hliðina sem var í umsjá Agga Agzilla og Þórhalls Skúlasonar (fyrrum Thule Records foringja). Þórhallur og Bjössi "Biogen" gerðu fyrstu og einu íslensku Hardcore plötuna, Rufige EP, undir nafninu Ajax Project árið 1991. Hún innihélt fjögur lög og seldist ágætlega í Bretlandi. Rufige EP var gefin út í samvinnu við Goldie, sem eignaði sér sjálfur heiðurinn af plötunni og talar enn í dag um hana sem sína fyrstu plötu (árans skúrkurinn!). Bó Halldórs (já sá eini sanni) fékk Skífuna til að gefa út íslensku safnplötuna Icerave árið 1992. Platan átti fyrst að heita “Alsæla”, en einhverjum bransaköllum þótti titillinn óviðeigandi þegar þeir áttuðu sig á að hér var á ferðinni íslenskt heiti á ólöglega fíkniefninu Ecstasy. Platan innihélt 15 lög frá listamönnum eins og Di Di Seven (aka Biggi Bix), Soul Control (aka Pétur Árna sem síðar varð útvarpsmaður á FM), Plan B (aka Muri), Mind In Motion og fimm lög frá Ajax (þar á meðal eitt undir nafninu Feður Flinstones). Ástæðan fyrir því hve vel Hardcore tónlistinni var tekið hérlendis má meðal annars þakka þeim sem höfðu komið fótunum undir þá litlu, en sterku, dansmenningu sem hér ríkti. Það er í raun ótrúlegt hve Íslendingar fylgdu þróun danstónlistarinnar vel eftir og því er það kannski ekki skrítið hve Íslendingar voru fljótir að meðtaka Hardcore-ið.

1993: Dark
Á árunum 1992-93 klofnaði Hardcore tónlistin í tvo flokka. Þar var annars vegar um að ræða þann tónlistargeira sem vildi halda í Rave ræturnar með öllu sem því fylgdi,   eins og hröðuðum helíumröddum og píanóköflum. Þeir sem fylgdu þeirri stefnu voru meðal annars Slipmatt og Lime (SL2) og DJ Seduction. Í dag kallast sú tónlist sem þeir spila Happy Hardcore og hefur hún nær ekkert breyst frá því árið 1993. Hinn flokkurinn vildi hins vegar halda þróuninni áfram og tók að fjarlægjast Rave menninguna. Þeir sem fóru fyrir síðarnefnda flokknum voru meðal annars 4 Hero, Goldie og Doc Scott. Þeir tóku Hardcore tónlistina yfir á harðari og skuggalegri braut sem byrjað var að kalla Dark. Lög sem mörkuðu stefnuna í Dark geiranum voru meðal annars "Terminator" með Goldie (Metalheads) sem Synthetic gaf út, "Valley Of The Shadow" með Andy C (Origin Unknown) sem hans eigin Ram Records útgáfa gaf út og "Bludclot Artattack" með Ed Rush & Nico sem var eitt af fyrstu plötunum frá No U-Turn útgáfunni. Breakbeat tónlistin var samt ekki alltaf hörð og harkaleg á þessum tíma og það sanna lög eins og "Helicopter Tune" með Deep Blue sem Moving Shadow gaf og "Music" með LTJ Bukem, sem kom út á hans eigin Good Looking útgáfu. Ray Keith kíkti í heimsókn við byrjun ársins og spilaði á Vítamín partýi í hliðarsal Hótel Íslands, Tunglinu og í Party Zone þættinum á útvarpsstöðinni Útrás.

Útvarpsstöðin X-ið 97.7 hóf starfsemi þetta árið og meðal fyrstu þátta stöðvarinnar var Ringulreið, eða Kaos, í umsjá Agga Agzilla og Frímanns Psycho. B-hliðin hafði farið úr loftinu rúmlega ári áður þannig að þátturinn var nauðsynleg viðbót við það sem þá var í gangi í útvarpinu. Því miður lifði Ringulreið aðeins í um hálft ár og við tók langur þurrkur af Breakbeat tónlist í útvarpi. Þetta voru síðusta ár Frímanns í Breakbeatinu sem losaði sig Psycho nafnið og fór að spila Techno. Aggi Agzilla gerði lagið "Rollin Like Scottie" með Goldie sem kom út á Enforcers 3 hjá Reinforced.

Sagan:
Inngangur | 1990-1993 | 1994-1996 | 1997-2000 | 2001-2002 | 2003-2004 | 2005-2006 | 2007-2008 | 2009


Breakbeat.is
Podcast