Sagan: 2007-2008

Fátt var um stóra nýja drætti í Drum & Bass tónlist á þessum árum. Ákveðin kynslóðaskipti hófust, auk þess sem valdahlutföllin milli Bretlandseyja og annarra landa tóku að breytast. Tónlistarlegar breytingar voru takmarkaðar en mikil áhersla myndaðist á að hafa hæsta og þéttasta sándið. Margir listamenn höfðu á því orð að breitt bil hafi myndast á milli mismunandi fylkinga og geira í senunni. Af athyglisverðum nýjum listamönnum má nefna Alix Perez, Lynx, Instra:Mental, Saburuko og fleiri.

 

Í hinni ungu og upprennandi Dubstep senu var mikil gróska. Margir sáu ákveðna samsvörun við þróun Drum & Bass tónlistar á fyrstu árum tíunda áratugarins en þökk sé Internetinu breiddist tónlistin út um allan heim með ógnarhraða. Af breskum listamönnum sem komu tónlistinni á sjónarsviðið má nefna Skream, Digital Mystikz, Pinch, Benga, The Bug, Kode9, Burial og Vex'd en ný kynslóð fór einnig að láta til sín taka, þar á meðal Martyn, Ramadanman, TRG, 2562, Peverelist, Caspa, Rusko og ótal fleiri. Thom Yorke úr Radiohead, Modeselektor hinir þýsku, popprokkhljómsveitin Pendulum og gömlu hundarnir í The Prodigy voru meðal margra sem léku sér með þessa sjóðandi heitu tónlistarstefnu.

 

Fyrsta Dubstep kvöld landsins er haldið á Pravda í janúar árið 2007 við frábærar undirtektir. Austurstrætið nötraði og skalf við bassadrunur þessara kraftmiklu tóna sem Ewok, Kalli og Tryggvi matreiddu ofan í gesti. Nokkru síðar boðaði Breakbeat.is flutning frá Pravda yfir á Barinn og Pravda brann til kaldra kola örfáum vikum síðar. Á Barnum (og síðar meir 22 eftir nafnbreytingu) héldu hins vegar langlífustu klúbbakvöld Reykjavíkur áfram að rúlla og merkismenn stigu þar á stokk undir nafni Breakbeat.is. Meðal annars má nefna Mala (Digital Mystikz) ásamt Sgt. Pokes, Martyn og Lynx sem spiluðu á Iceland Airwaves kvöldum Breakbeat.is og íslenska snúða á borð við Agzilla, Bjarka Sveins, Reyni, Nightshock, Tryggva og Árna Kristjánsson. Eitthvað hægðist svo hins vegar á plötusnúðainnflutningi Breakbeat.is, ekki síst vegna mikillar samkeppni frá öðrum danstónlistarbatteríum sem sprungu út eftir að danstónlist tók tískusveiflu upp á við samhliða miklu góðæri á klakanum. Þó spiluðu Goldie, Noisia og Commix á Breakbeat.is klúbbakvöldum á þessum árum. 

 

Sagan:
Inngangur | 1990-1993 | 1994-1996 | 1997-2000 | 2001-2002 | 2003-2004 | 2005-2006 | 2007-2008 | 2009


Breakbeat.is
Podcast