Sagan:2003-2004

Drum & Bass tónlistin hélt áfram að eflast neðanjarðar. Gömlu brýnin höfðu áfram töglin og haldirnar og plötusnúðar á borð við Grooverider, Fabio, Hype og Andy C höfðu gríðarleg völd í senunni á meðan listamenn á borð við Ed Rush & Optical, Bad Company og Dillinja áttu ennþá fastan sess í plötutöskum flestra snúðanna. Þó komu fram ný nöfn á þessum árum sem urðu æ fyrirferðameiri innan senunnar, til að mynda High Contrast og Calibre. Áströlsku þremenningarnir í Pendulum komu fram á sjónarsviðið árið 2003 með laginu “Vault” sem tröllreið dansgólfum um víða veröld og trónaði m.a. á toppi árslista Breakbeat.is fyrir árið. Í kjölfarið urðu þremenningarnir svo eitt stærsta nafnið í senunni, gáfu út breiðskífu á útgáfu Adam F og Fresh, Breakbeat Kaos, og “krossuðu-yfir í meinstrímið” með rokkskotinni og grípandi drum & bass tónlist sem rataði í dagsspilun útvarpsstöðva um víða veröld. Innan skamms var þeim hampað sem arftökum The Prodigy.

 

Á Íslandi kom ferskt blóð inn í senuna þegar þeir Kalli, Lelli, Fróði og Gunni Ewok komu inn í Breakbeat.is batteríið. Ásamt Alla tóku þeir við stjórn vefsins, útvarpsþáttarins og viðburðum tengdum Breakbeat.is. Kristinn og Reynir drógu sig í hlé en spiluðu þó með reglulegu millibili á kvöldunum. Þetta voru viðburðarík ár í Drum & Bass senu Reykjavíkur og margir góðir gestir sóttu landið heim. Má þar nefna DJ Bailey, Dom & Roland, Klute, London Elektricity, Pascal, John B, A-Sides, DJ Clever, Pyro og Konflict goðsögnin Kemal sem spilaði á stútfullum Kapital á fyrstu klukkustundum ársins 2004. Fastakvöldin héldu áfram að rúlla, og færðu sig um set frá Vídalín og yfir á Kapital sem var eini raunverulegi næturklúbbur Reykjavíkur á þessum tíma. 

Sagan:
Inngangur | 1990-1993 | 1994-1996 | 1997-2000 | 2001-2002 | 2003-2004 | 2005-2006 | 2007-2008 | 2009


Breakbeat.is
Podcast