Sagan: 2005-2006

Nóg var að gerast í heimi Drum & Bass tónlistarinnar á þessum árum, en senan tvístraðist að vissu leyti. Vinsældir Pendulum gátu af sér heila herdeild af eftirhermum og voru þeir í fararbroddi stefnu sem naut mikilla vinsælda á stórum klúbbakvöldum og var á niðrandi hátt uppnefnd clownstep eða nu-jump up spjallborðum. Meðal annarra listamanna sem settir voru í þann flokk má nefna Clipz, Sub Focus, Fresh (úr Bad Company) og jafnvel fyrrum kónginn Dillinja. 

 

Liquid Funk stefnan hélt áfram að þróast og innan hennar nutu Dub og Reggae áhrif mikilla vinsælda, auk þess sem dýpra sánd tók að þróast. Listamenn sem gátu sér góðs orðs innan þessarar hreyfingar voru t.d. Marcus Intalex og ST Files, Íslandsvinurinn og fyrrum Bad Company kempan D-Bridge, Calibre, High Contrast, Commix og Logistics. 

 

Neurofunk festist sem heiti á hinum dimma og tæknilega hluta Drum & Bass tónlistarinnar sem Bad Company og Ed Rush & Optical voru forvígismenn fyrir. Innan þess geira var mikil gróska t.a.m. frá listamönnum á borð við Noisia, Spor, Phace og The Upbeats.

 

Hin svokallaða Drumfunk stefna átti sína dyggu aðdáendur. Drumfunk byggist á mikilli taktaleikfimi, þar eru trommulúppur eru skornar í sundur og þeim endurraðað af mikilli færni. Forvígismenn þessa geira sögðust vera að vinna úr arfleið jungle tónlistarinnar og litu þróun Drum & Bass tónlistar í línulegri og einleitari átt hvað varðar takt og ryþma hornauga. Meðal listamanna í þessum geira má nefna Paradox, Fracture & Neptune, Breakage, Equinox og Seba hinn sænska. Fleiri voru einnig að leika sér í taktaleikfimi, en þó á miklu harðari og drungalegri nótum. Gamlar kempur á borð við Technical Itch, Dylan, Current Value og Panacea fóru fyrir þessum flokki og yngri harðhausar á borð við Evol Intent, Limewax og SPL vöktu lukku. 

 

Þá fór að bera á nýrri tónlistarstefnu í Suður-London, sem var fyrir miklum áhrifum frá Garage og Grime tónlistinni. Dubstep senan sprakk út með miklum látum og ófáir komust í kynni við þessa spennandi stefnu í gegnum hinn goðsagnarkennda Dubstep Warz þátt Mary Anne Hobbs á BBC í janúar árið 2006. Breakbeat.is gengið fylgdist með þróun senunnar og færði Íslendingum Dubstep tóna í auknum mæli í kjölfarið.

 

Breakbeat.is lét hendur standa fram úr ermum í Drum & Bass tengdum viðburðum þessi árin. Íslandsvinurinn Goldie spilaði á einu magnaðasta klúbbakvöldi Íslandssögunnar á NASA vorið 2005 og tæpu ári síðar var pakkað út úr dyrum á sama stað þegar El Hornet úr Pendulum lék fyrir dansi á árslistakvöldi Breakbeat.is. Aðrir sem sóttu klakann heim á þessum árum voru Klute, sem spilaði á Leikhúskjallaranum, High Contrast og Amit spiluðu á sitthvoru Breakbeat.is og Iceland Airwaves kvöldinu, D-Bridge spilaði á Gauknum, líkt og Craze og Armanni Reign, Marcus Intalex mætti á áramótatjútt Breakbeat.is á Gauknum 2005-2006 en gat ekki spilað sökum matareitrunar. Code og Clever spiluðu á Pravda og John B steig á stokk á NASA. Breakbeat.is fastakvöldin færðu sig yfir á Pravda eftir að Kapital var breytt í strípibúllu. Á Pravda héldu þessi langlífustu klúbbakvöld Reykjavíkur áfram að blómstra og þar komu fram fjölmargir íslenskir og erlendir listamenn á vegum Breakbeat.is. Má til að mynda nefna Kasra frá Critical Records, Eldar og Adda sem spiluðu á 10 ára afmæli Skýjum Ofar, djammarana Dr. Mista & Mr. Handsome, Hip Hop snúðinn Magga Paranoya sem tók “4 deck session” með Kalla og Lella og dúóið Mars sem blandaði saman live spilamennsku og skífuþeytingum.

 

Plötusnúðamenningin og danstónlist almennt tók verulegum stakkaskiptum á þessum árum en MP3 sala byrjaði að slá í gegn og vínyllinn tók að víkja. Fleiri og fleiri snúðar tóku geisladiska eða tölvuforrit á borð við Serato og Ableton upp á sína arma. Tækninýjungarnar voru spennandi en þó var eitthvað sorglegt við minnkandi vægi vínyls að margra mati.

 

Sagan:
Inngangur | 1990-1993 | 1994-1996 | 1997-2000 | 2001-2002 | 2003-2004 | 2005-2006 | 2007-2008 | 2009


Breakbeat.is
Podcast