1994-1996

1994: Jungle
Árið 1994 náðu Ragga áhrifin yfirhöndinni í Breakbeat tónlistinni. Raggamuffin raddir og Reggae sömpl voru í öðru hverju lagi og nafnið Jungle festist við tónlistina. Reyndar höfðu margir byrjað að kalla tónlistina Jungle eftir að leiðir skildu við Happy Hardcore, en það var fyrst núna að fjölmiðlar tóku að kalla hana Jungle. Þetta árið fóru listamennirnir Dillinja, Photek og Roni Size að bera á sér fyrir alvöru, ásamt útgáfufyrirtæki Goldie, Metalheadz, og Ganja, sem var í eigu DJ Hype, DJ Zinc og Pascal. Lagið "Inner City Life" með Goldie & Rob Playford (Metalheads) var fyrsta skrefið í útþenslu Drum & Bass tónlistarinnar. Lagið "Terrorist" með Ray Keith (Renegade), sem Moving Shadow gaf út markaði brautina fyrir nýja stefnu sem Jungle tónlistin tók við undir lok ársins þar sem takturinn og bassinn skiptu öllu máli. Sú stefna var að mestu laus við Ragga áhrifin og því lá beinast við að kalla hana einfaldlega Drum & Bass. Á Íslandi var lítið að gerast þetta árið, fyrir utan það að einn stærsti drum & bass plötusnúður heims, Doc Scott, kíkti í heimsókn og hitaði upp fyrir Evrópopphljómsveitina N-Trance í Kolaportinu.

1995: Drum & Bass
Drum & Bass stóð í miklum blóma árið 1995 og þetta ár fór tónlistin að vekja mikla athygli í tónlistarheiminum. Goldie (með aðstoð Rob Playford) gaf út tímamótabreiðskífuna Timeless, sem var ekki aðeins ein fyrsta breiðskífa Hardcore/Drum & Bass tónlistarinnar, heldur opnaði hún einnig augu margra fyrir þessu tónlistarformi. Safnplatan Logical Progression sem LTJ Bukem tók saman fyrir útgáfu sína Good Looking vakti líka mikla athygli. Á klúbbakvöldunum Speed og Metalheadz Sunday Sessions í London var hægt að heyra það ferskasta sem er að gerast í öllum tegundum Drum & Bass tónlistarinnar. Þessir klúbbar gegndu sama hlutverki og Rage í gamla daga, voru nokkurs konar tilraunastöðvar þar sem listamenn gátu séð hvort lögin þeirra voru að virka. Á Speed voru LTJ Bukem og Fabio fastasnúðar, en þessi staður lifði í um tvö ár. Á Metalheadz kvöldunum voru það Goldie, Doc Scott og félagar sem sá um stuðið á Blue Note klúbbnum. Stærstu lög ársins voru "Pulp Fiction" með Alex Reece sem Metalheadz gaf út, "Mutant Jazz" með T-Power og MK Ultra sem S.O.U.R. gaf út og "Heaven" með Carlito sem var fyrsta platan frá útgáfufyrirtæki Fabio, Creative Source. Þrátt fyrir að Drum & Bass tónlistin hafi verið á mikilli uppleið í Bretlandi og víða annars staðar voru Íslendingar ekki alveg með á nótunum. Tónlistin var hvorki spiluð í útvarpi né á skemmtistöðunum hérlendis. Fyrir utan heimsókn Production House gæjans DMS, sem spilaði á Rósenberg og Villta Tryllta Villa, var lítið sem ekkert að gerast. 

1996: Breakbeat vakning á Íslandi
Árið 1996 fór Drum & Bass fer fyrir alvöru að skiptast niður í undirflokka. LTJ Bukem fór fyrir mjúku Ambient kenndu línunni sem fékk nafnið Intelligent eða Atmospheric Drum & Bass. Grooverider fór fyrir Hardstep stefnuni sem einkennist meðal annars af reggae og hip hop áhrifum og "two step" takti. Nico, Trace og Ed Rush komu fram með fyrirbæri sem kallaðist Techstep og var í raun afturhvarf til gamla Dark andrúmsloftsins að viðbættum "two step" takti. Fabio og fleiri fóru fyrir Jazzy geiranum. Lögin sem settu mark sitt á árið voru hið tilraunakennda "Hidden Camera" með Photek sem kom út á Science, "Metropolis" með Adam F sem Metalheadz gaf út og endurgerðir DJ Trace af "Mutant Jazz", "Mutant Jazz (Rollers Instinct)" og "Mutant Revisited", en það fyrrnefnda er talið vera fyrsta Techstep lagið. Í þessum remixum naut Trace aðstoðar Nico, Ed Rush og Dom & Roland. Reinforced Records fögnuðu hundruðustu útgáfu sinni á árinu með útkomu safnplötunnar Above the Law - Enforcers. 

Í byrjun ársins stofnuðu Aggi Agzilla og Alfred More (President Bongo úr Gus Gus) plötubúðina Elf-19 á Laugavegi, sem sérhæfði sig í Drum & Bass. Síðar á árinu fóru þeir, ásamt Hr. Örlygi, í gang með vikuleg Drum & Dass kvöld með sama nafni á efri hæð veitingahússin 22, en eftir að Aggi flutti til New York tók DJ Reynir hans stað. Þessi kvöld fóru fram á miðvikudögum og voru ekki aðeins fyrstu reglulegu klúbbakvöldin þar sem Drum & Bass heyrðist, heldur breyttu þau líka þeirri hugsun að aðeins væri hægt að tjútta um helgar. Goldie og Grooverider spiluðu á tónleikum í Laugardalshöll ásamt Björk og í júní fór útvarpsþátturinn Skýjum Ofar, í umsjá Adda og Eldars, í loftið á X-inu. Þar með var langri útskúfun þessarar tónlistar úr íslensku útvarpi loksins lokið og áhugi á Drum & Bass tónlistinni fór vaxandi. Í desember spilaði J Majik á Elf-19 og í Skýjum Ofar.

Sagan:
Inngangur | 1990-1993 | 1994-1996 | 1997-2000 | 2001-2002 | 2003-2004 | 2005-2006 | 2007-2008 | 2009


Breakbeat.is
Podcast