Sagan:1997-2000

 

1997: Ný form

Roni Size, DJ Die, Suv og Krust gáfu breiðskífuna "New Forms" undir nafninu Roni Size & Reprazent. Platan vakti gríðarlega athygli, sérstaklega eftir að hafa fengið hin virtu Mercury tónlistarverðlaun. Roni Size lýsti því yfir að þetta hafi ekki eingöngu verið viðurkenning fyrir þeirra eigin tónlist heldur einnig fyrir drum & bass tónlistina í heild. "Fólk hefur verið reitt yfir því að Goldie og LTJ hafi verið hunsaðir, en þeir voru það ekki. Það var bara tímasetningin. Okkar plata sýndi hverju þeir höfðu þegar áorkað." (Roni Size - DJ Magazine). Helstu plötusnúðar og tónlistarmenn bransans voru á sama máli. Reprazent lagið "Brown Paper Bag" gerði allt vitlaust á árinu og stóru plötuútgáfunar gerðu samninga við marga helstu listamenn Drum & Bass geirans eins og Photek, Dillinja og 4 Hero. Moving Shadow fagnaði hundruðustu útgáfu sinni með útkomu 12" sem hafði að geyma lagið "The Shadow" með Rob Playford & Goldie og "Distorted Dreams" með Dom & Roland og Rob Playford. Rick Smith úr Underworld gerði frábært remix af "The Shadow". Árið eftir yfirgaf meginkjarni Moving Shadow útgáfuna og stofnaði Partisan Recordings. 

 

Drum & Bass hélt áfram að ná fótfestu hér á landi. Ed Rush, Fierce og Boymerang kíktu í heimsókn fyrstu mánuði ársins og spiluðu á Elf-19 kvöldum og í Skýjum Ofar. Dom & Roland kom og spilaði á árs afmæli Skýjum Ofar á Bíóbarnum. Síðar á árinu kom Fierce síðan aftur í heimsókn og þá með Nico með sér. Þeir spiluðu á Tækni kvöldi í Rósenberg miðvikudagskvöldið 12. nóvember og í Skýjum Ofar. Kvöldið reyndist vera það fjölmennasta í tvö ár á Rósenberg. Fyrsta íslenska Drum & Bass platan "Anatomy Of Strings EP" með Hugh Jazz kom út hjá Thule Traks sem hann fylgdi síðan eftir með "In Character / Out of Character". Plasmic gaf út Disturbance EP hjá Q-Factor útgáfunni og Páll Óskar og Stefán Hilmars döðruðu við Drum & Bass í lagasmíðum sínum á þessum tíma.

 

1998-1999: Hægist á þróuninni

 Eftir geysihraða þróun á árunum 1990-97 fór að hægjast á Breakbeat byltingunni upp úr 1998. Mikið af góðum hlutum voru í gangi í tónlistinn, en lítið af nýjungum. Urmull af nýjum plötuútgáfum kom fram og undir lok ársins 1999 var líkt og annar hver listamaður væri að reka sína eigin útgáfu. Aðal listamaðurinn þessi tvö ár var maður að nafni Optical, sem bæði einn síns liðs og í samvinnu við aðra gaf út hvert stórlagið á fætur öðru, ásamt því að vinna með Goldie og Grooverider að breiðskífum þeirra. 

 

Á Íslandi hélt Drum & Bass menningin áfram að fitna og tónlistin varð ein vinsælasta danstónlistarstefna landsins. Árið 1999 poppuðu upp tveir nýir útvarpsþættir á nýrri Hip Hop og danstónlistarstöð sem kallaðist Skratz: Þessir þættir voru Synthetic í umsjá Adda & Óla og Tækni í umsjá Eldars & Reynis. Stöðin var hinsvegar ekki langlíf og Tækni kom næst fram á X-inu í umsjá Reynis eftir að Skýjum Ofar hafði yfirgefið stöðina og farið á Rás 2. Með tilkomu Skýjum Ofar á Rás 2 var í fyrsta sinn hægt að heyra Drum & Bass um land allt í gegnum útvarp. 

 

Aðeins ein íslensk Drum & Bass plata kom út á þessu tímabili: "Implants" með Probe á Implants Recordings árið 1998 og Sigur Rós gerðu Drum & Bass lagið "Leit Að Lífi" vinsælt sama ár. Drum & Bass heyrðist í fyrsta sinn á stærstu árlegu tónlistarhátíð landsins, Jazzhátíð Reykjavíkur, þegar sænska hljómsveitin Yoga og DJ Lee gerðu allt vitlaust á Gauki á Stöng. Þeir tónleikar voru enn ferskir í minnum margra þegar Yoga sneru aftur á klakann ári síðar til að spila á 3 ára afmæli Skýjum Ofar á sama stað. Heimsóknir erlendra stórmenna í Drum & Bass geiranum voru annars algengar á árunum 1998-99. DJ Lee kom tvisvar í heimsókn og spilaði í seinna skipti á Bíóbarnum sáluga. Matrix spilaði á 2 ára afmæli Skýjum Ofar á Rósenberg, sem brann sumarið 1999 og DJ Kontrol spilaði á slöppum Skjálfta (útihátíð á Suðurlandi). DJ Die spilaði á 1 árs afmæli Hjartsláttar og Deep Blue, Indica, Justice, Bryan Gee, Klute og Calyx spiluðu allir á Virkni kvöldum á Kaffi Thomsen sem settu svip sinn á Drum & Bass menninguna árið 1999. 

 

 

2000 - Aldamót

Árið 2000 hófst nýr kafli í sögu drum & bass og breakbeat tónlistar á Íslandi, með opnun vefsins www.breakbeat.is. Þann 5. janúar árið 2000 spilaði DJ Kontrol í opnunarteiti þessa nýja vefs og setti tóninn fyrir nýja tíma. Stofnmeðlimir vefsíðunnar og félagsins Breakbeat á Íslandi voru Addi og Eldar, umsjónarmenn Skýjum Ofar, Reynir, umsjónarmaður Tækni, og Alli, Drum & Bass áhugamaður og tölvugúru. Saman stóðu þeir félagar að einum öflugasta tónlistarvef landsins og fjölmörgum viðburðum honum tengdum, en Breakbeat.is varð fljótlega regnhlífasamtök yfir ýmislegt tengt Drum & Bass menningu Íslands. Mánaðarleg Breakbeat.is kvöld voru haldin á 22, Addi hélt úti kvöldunum Jafnvægi á Rauðvínsbarnum Sirkus þar sem tilraunakenndari Breakbeat tónar fengu að hljóma og auk þess voru Virkni, Tækni og Skýjum Ofar kvöld haldin með reglulegu millibili. Meðal þeirra sem sóttu klakann heim þetta árið má nefna Dom & Roland og Aquasky sem spiluðu á goðsagnakenndu afmæli Undirtóna á Gauknum, A-Sides (4 ára afmæli Skýjum Ofar á 22), Carl Collins, DJ Panik, Future Cut, Perfect Combination, J Majik (á Airwaves kvöldi Breakbeat.is) og Marcus Intalex (1 árs afmæli Tækni). 

 

Í tónlistinni hélt harða sándið áfram að tröllríða öllu. Bad Company, Ed Rush & Optical, Renegade Hardware flokkurinn og Ram Trilogy voru þar á meðal stærstu nafnanna og ólu af sér heila hersingu af misgóðum eftirhermum. Stærri spámenn á borð við Dillinja, J Majik, Roni Size & Reprazent héldu áfram að senda frá sér hvern slagarann á fætur öðrum. Nýjar stefnur fóru að verða til. Má þar nefna Liquid Funk, mýkri og House skotnari Drum & Bass tónlist sem var hampað af mönnum eins og Marcus Intalex & ST Files, Calibre, Marky og Hospital flokknum auk þess að eiga sér sterkan liðsmann í Fabio sem lofaði þessa stefnu í útvarpsþætti sínum á BBC og á útgáfu sinni Creative Source. Í lok ársins varð ákveðin Old Skool og Rave endurvakning hjá mönnum á borð við Digital & Spirit, Total Science og Accidental Heroes. Old Skool stöbb, Ragga vókalar og Rave stemming var þar allsráðandi. 

 

Sagan:
Inngangur | 1990-1993 | 1994-1996 | 1997-2000 | 2001-2002 | 2003-2004 | 2005-2006 | 2007-2008 | 2009


Breakbeat.is
Podcast